grand20222

Heiðursfélagar Chelsea klúbbsins á Íslandi

Frá stofnun Chelsea klúbbsins á Íslandi þann 16. mars 1997 hafa níu einstaklingar orðið þess heiðurs aðnjótandi að vera útnefndir heiðursfélagar í Chelsea klúbbnum. Um val á heiðursfélögum eru lög og reglur stjórnar sem má lesa um hér.

Heiðursfélagar eru hér taldir upp og eru þeir eftirfarandi: 

 

Sölvi Sveinsson og Þórður Óskarsson 2022

heidursf

Sölvi Sveinsson og Þórður Óskarsson, endurskoðendur klúbbsins, voru gerðir að heiðursfélögum á aðalfundi Chelsea-klúbbsins á Íslandi þann 1. október 2022. Þeir hafa gefið sér tíma í að sinna þeim mikilvæga þætti að fara yfir ársreikninga klúbbsins í áratugi og vel að því komnir að fá þakklæti og hrós frá okkar ástkæra klúbbi.

 

Birgir B. Blomsterberg 2019

birgir

 

Blommi er einn af stofnendum Chelsea klúbbsins á Íslandi og var ritari klúbbsins í fjölda ára. Hann hefur alla tíð verið drjúgur stuðningsmaður Chelsea klúbbsins, m.a. hvað varðar að útvega vinninga til nota í happdrættum á vegum klúbbsins. Blommi var útnefndur heiðursfélagi á aðalfundi Chelsea klúbbsins 2. nóvember 2019.

 

Eiður Smári Guðjohnsen 2022

eidur-smariÞennan kappa þarf vart að kynna fyrir lesendum. Eiður Smári Guðjohnsen gekk til liðs við Chelsea Football Club sumarið 2000 fyrir tilstilli Gianluca Vialli, þáverandi knattspyrnustjóra Chelsea.

Eiður var leikmaður Chelsea næstu sex keppnistímabil, lék alls 262 leiki með Chelsea og skoraði í þeim 78 mörk auk þess að leggja upp 32 mörk að auki. Samvinna Eiðs Smára og Jimmy Floyd Hasselbaink var rómuð og mynduðu þeir eitt skæðasta sóknarpar sem um getur í ensku knattspyrnunni.

Eiður er enn í dag mikils metinn af stuðningsmönnum Chelsea um allan heim, sannkallaður „Chelsea legend“.

Eiður var sæmdur nafnbótinni heiðursfélagi Chelsea klúbbsins á 25 ára afmælishátíð Chelsea klúbbsins á Íslandi er fram fór á Grand Hótel Reykjavík þann 18. mars 2022 og er hann sjötti einstaklingurinn er nýtur þessa heiðurs.

 

 

Eyjólfur Þ. Þórðarson 2007

eyjo

Eyjó var aðalhvatamaður að stofnun Chelsea klúbbsins á Íslandi og fyrsti formaður klúbbsins, lofsvert framtak á sínum tíma og stendur klúbburinn í mikilli þakkarskuld við Eyjó fyrir framtakið. Eyjó varð fyrstur til að hljóta þann heiður að vera útnefndur heiðursfélagi Chelsea klúbbsins á Íslandi, var sú ákvörðun kunngerð á 10 ára afmælishátíð klúbbsins á Grand Hótel Reykjavík 17. mars 2007.

 

Ingvar J Viktorsson 2013

ingvar

Ingvar hefur verið sjálfskipaður fundarstjóri Chelsea klúbbsins á Íslandi nánast frá upphafi og varla misst úr fund, stjórnað þeim af mikilli röggsemi eins og hans er von og vísa. Jafnframt hefur Ingvar verið drjúgur stuðningsmaður klúbbsins þegar komið hefur verið að fjáröflun ýmiss konar. Ingvar var útnefndur heiðursfélagi á aðalfundi Chelsea klúbbsins þann 19. október 2013.

 

 

Jóhann Sigurólason 2022 

Jóhann SigurólasonJóhann Sigurólason var útnefndur heiðursfélagi í Chelsea klúbbnum á Íslandi á 25 ára afmælishátíð klúbbsins er fram fór á Grand Hótel Reykjavík 18. mars 2022 en Jóhann er yfirmaður gistisviðs og bókunarstjóri á því sama hóteli.

Jóhann gekk til liðs við Chelsea klúbbinn árið 2001 og hefur ætíð síðan verið dyggur stuðningsmaður klúbbsins og Chelsea Football Club og nokkrar eru ferðirnar orðnar á Stamford Bridge. Jóhann hefur reynst Chelsea klúbbnum drjúgur félagsmaður í rúm 20 ár, ætíð verið boðinn og búinn til hjálpar er komið hefur að því að útvega húsnæði fyrir samkomur á vegum klúbbsins, þá hefur hann greitt götu margra félagsmanna varðandi gistingu í Reykjavík og auðveldað stjórnarmönnum aðgengi að leikmönnum Chelsea er gist hafa á hótelinu er þeir hafa komið hingað til lands með landsliðum sínum til keppni.

Þá hefur Jóhann ósjaldan lagt Chelsea klúbbnum til vinninga til nota í happdrættum á vegum klúbbsins. Jóhann er sá sjöundi í röð heiðursfélaga Chelsea klúbbsins á Íslandi. 

 

Páll Ásmundsson 2021

palli-asmunds

Páll Ásmundsson (Vialli) hefur verið mikill stuðningsmaður Chelsea í langa tíð og ötull stjórnarmaður fyrstu fjögur ár Chelsea klúbbsins á Íslandi. Hann sýndi þar óeigingjarnt starf sem stjórnarmaður og var öflugur í verkefna- og skipulagsstjórnun. Láði hann, m.a. stjórn klúbbsins fundarstað í fyrirtæki sínu og var gjöfull á bæði tíma og vinnu og sjaldan fóru stjórnarmenn tómhentir heim af stjórnarfundum . Páll er án efa einn af duglegustu stuðningsmönnum félagsins og ófáar ferðir farið á Brúnna og æfingasvæði Chelsea. Honum var sýnd sú virðing að verða fimmti heiðursfélagi á aðalfundi Chelsea klúbbsins á Íslandi þann 6. nóvember á Grand Hóteli 2021.

 

Ríkharður Chan (03.06.1946 – 16.01.2008)

rikki

Ríkharður heitinn Chan, sem hér sést ásamt Önnu Gretu eiginkonu sinni, í London Underground á leið út á Harlington Training Ground, þáverandi æfingasvæði Chelsea liðsins, var einlægur stuðningsmaður Chelsea Football Club og mikill velgjörðarmaður Chelsea klúbbsins á Íslandi, nokkuð sem eftirlifandi fjölskylda hans hefur haft í heiðri allt frá andláti Rikka. Rikki var útnefndur heiðursfélagi á aðalfundi Chelsea klúbbsins þann 8. september 2007.
Blessuð sé minning Rikka Chan.