Kaupin á Chelsea ganga í gegn

„Seint í gærkvöldi komst breska ríkisstjórnin að þeirri niðurstöðu að henni væri unnt að veita leyfi fyrir sölunni á Chelsea," sagði talsmaður ríkisstjórnarinnar í morgun.
Vegna refsiaðgerða breskra stjórnvalda í garð rússneska auðkýfingsins Romans Abramovich í tengslum við innrás Rússlands í Úkraínu, þar sem Abramovich er sagður náinn Vladimír Pútín Rússlandsforseta, vildi breska ríkisstjórnin ganga úr skugga um að Abramovich myndi ekkert hagnast á sölunni.
Stóð hnífurinn í kúnni um nokkurt skeið vegna þessa en bresk stjórnvöld una nú þeim aðgerðum sem hafa verið settar á fót og sjá til þess að allur hagnaður sem hefði runnið í vasa Abramovich verði þess í stað lagður inn á frystan bankareikning, þaðan sem öll upphæðin mun renna til góðgerðarmála.