grand20222

Fundargerð aðalfundar klúbbsins 1. október 2022

Aðalfundur Chelsea-klúbbsins á Íslandi var haldin í Hvammi á Grand Hótel þann 1. október sl. Þátttaka var mjög góð og gestir í góðu skapi, enda langt um liðið að fólk geti hist og átt glaðan dag saman. Farið var yfir reglubundna dagskrá og var Ingvar sjálfkjörinn fundarstjóri, nokkuð sem sá heiðursmaður kann vel til verka. 

ingvar

Ingvar tók að sér fundarstjórn og kann það vel, enda þaulvanur.

Formaður fór yfir nokkra hápunkta Chelsea Football Club á liðnu starfsári og var af nógu að taka, árið var viðburðarríkt svo ekki sé tekið sterkara til orða. Skýrsla stjórnar fólst formanni vel úr hendi. Ársreikningum voru gerð góð skil og samþykktir af endurskoðendum klúbbsins, heiðursmönnunum Sölva Sveinssyni og Þórði Óskarssyni.

aritun

Ársreikningur undirritaður með gjafapennum frá Stamford Bridge

Fundargestir samþykktu skýrslu stjórnar og ársreikninga og Sölvi og Þórður árituðu ársreikningana í vitna viðurvist með sérstökum gjafapennum frá móðurfélaginu þeim til eignar. Stjórn klúbbsins notaði um leið tækifærið og bað þá um að veita viðtöku innrömmuðum skjölum til staðfestingar tilnefningu þeirra sem heiðursfélaga Chelsea-klúbbsins á Íslandi. Þeir báðir hafa undirritað alla ársreikninga klúbbsins á þessari öld. Einnig voru þeim færðir blómvendir við þetta tækifæri frá Chelsea-klúbbnum.

Þökkum við þeim af heilhug fyrir að gefa sér tíma í þessi skylduverk.

heidursf

Sölvi Sveinsson og Þórður Óskarsson eru nú orðnir heiðursfélagar klúbbsins.

Þá var komið að happdrætti félagsmanna sem höfðu greitt árgjöld í tíma og voru vinningshafar fimm samtals er hlutu gjafir frá AVIS, Grand Hóteli, Lemon og Shake & Pizza.

Unglingaflokkur hlaut þrjá vinninga frá Jóa útherja, Lemon og Shake & Pizza. Barnaflokkur gjafabréf frá Jóa útherja og tvo frá Shake & Pizza. Loks var dregið úr nöfnum fundargesta og hlutu þrír þeirra glaðning frá Keiluhöllinni, Myllunni og Lemon.

Fundurinn gekk vel og gafst góður tími að ræða okkar á milli í fjarveru Willums Þórs en hann var staddur í Hollandi að fylgjast með leik Ajax vs Go Ahead Eagles hvar nafni hans og sonur skoraði jöfnunarmark síns liðs gegn stórliðinu í 1-1 jafntefli. Willum eldri bað fyrir kveðju til allra.

Þá var komið að kosningu stjórnar og var fráfarandi formaður endurkjörinn enda einn í framboði. Vésteinn Örn Pétursson sem kom inn í stjórn klúbbsins á síðasta ári hefur nú farið í nám erlendis og því þurfti að fylla hans skarð. Freysteinn Guðmundur Jóhannsson var sá eini sem gaf kost á sér í hans stað og var hann því sjálfkjörinn í stjórn klúbbsins og bjóðum við hann velkominn til starfa og þökkum Vésteini sín störf.

freysteinn

Freysteinn vígður inn og boðinn velkominn í stjórn klúbbsins.

Aðrir stjórnarmenn voru endurkjörnir en þeir eru Helgi Rúnar Magnússon, Kristján Þór Árnason og Pétur Pétursson. Laganefnd var endurkjörin sem og endurskoðendur Chelsea-klúbbsins. 

Eftir hefðbundin fundarstörf var komið að öðrum málum.

Þá steig í pontu formaður klúbbsins, Karl H. Hillers og hóf ræðu sína á þeim orðum að fundargestir og um leið klúbbsfélagar fari nú að huga að eftirmanni hans. Karl hefur verið formaður Chelsea-klúbbsins á Íslandi eða í stjórn frá upphafi og kunna margir honum miklar þakkir fyrir störf sín sem hann hefur sinnt af eljusemi, nákvæmni, sanngirni og heilhug. Hann endurtók að nú þyrfti klúbburinn að hugsa vel til hans arftaka því Karl hefur í mörg horn að líta og sinnir barnabörnum sínum af miklum dugnaði og ekki yngist hann með árunum. Störf formanns eru ærin, hvort sem er að degi til eða seint að kvöldi. Formaður óskaði sérstaklega eftir því að fá fleiri konur í stjórn og velti fyrir sér hvort að ekki væri tími til að skoða kynjakvóta.

salur

Framundan er svo skipulagning afmælisfagnaðar á vegum skemmtinefndar og verður vonandi tilkynnt fljótlega hvernig, hvar og hvenær afmælisfagnaður verður. Stjórnin vakti einnig athygli á Chelsea-varningi sem Markó-Merki hafa á boðstólnum til stuðningsmanna, eins og Chelsea-fána, ljós með merki Chelsea og sitthvað fleira og verður varningi þessum gerð betri skil á heimasíðu klúbbsins bráðlega.

Fundi var slitið 13:20 og í framhaldinu var boðið upp á sérlega glæsilegar veitingar frá Grand Hótel. Sátu félagsmenn að spjalli fram til klukkan 14:00 en þá hófst bein útsending frá leik Crystal Palace og Chelsea er fram fór á Selhurst Park. Leikurinn var mjög taugatrekkjandi en hægt var að hugga sig með veitingum á meðan á honum stóð. Í hálfleik var mikið rætt um gang mála.

Þegar seinni hálfleikur hófst þurftu nokkrir grjótharðir stuðningsmenn FH og Víkings að skottast yfir á Laugardalsvöll því þar var úrslitaleikur í einhverri boltakeppni. Sumir þurftu þó að fara beint heim í föðurlandið, enda mismikil gola og breytilegt hitastig getur kælt funheita stuðningsmenn þessara liða. 

Seinni hálfleikur gekk ekki að óskum til að byrja með og voru margir orðnir örvæntingafullir en Conor Gallagher kom sá og sigraði með gullfallegu marki í blálokin. 

Þrjú stig í hús og mikill fögnuður.

Stuttu seinna lauk samkomunni með lófataki og miklum fögnuði.

Við þökkum fyrir frábæran fund og horfum nú áfram með höfuðið hátt. Við viljum nota tækifærið og þakka starfsfólki Grand Hótels og undirbúningi frá þeim að sérstaklega vel heppnuðu fundi. Þau eiga öll hrós skilið. Þá ber að þakka fundargestum fyrir komuna sem og þeim samstarfs- & styrktaraðilum er lögðu til vinninga í happdrættin.

KTBFFH.

Stjórn Chelsea-klúbbsins á Íslandi.