Cadbury Mini Eggs vefbordi 600x150px

Keppnistímabilið 2022 - 2023, leikjaniðurröðun í Úrvalsdeildinni

Enska úrvalsdeildin hefst laugardaginn 6. ágúst n.k. og liggja fyrstu drög að leikjaniðurröðun nú fyrir en rétthafar beinna útsendinga í sjónvarpi frá leikjunum eiga svo eftir að ákveða tilfærslur á fjölda leikja vegna beinna útsendinga í sjónvarpi, ekki er vitað að svo stöddu hver fyrirvarinn er sem rétthafarnir hafa til að tilkynna um slíkur tilfærslur.

Í fyrstu umferðinni mætir Chelsea liði Everton og fer leikur liðanna fram á Goodison Park, síðasta umferðin fer svo fram sunnudaginn 28. maí 2023 og mætir Chelsea þá liði Newcastle United á Stamford Bridge.

Gert verður hlé á keppni í Úrvalsdeildinni dagana 14. nóvember – 25. desember vegna HM í knattspyrnu en keppni í Úrvalsdeildinni hefst að nýju á öðrum degi jóla 2022.

Við munum birta leikjaskrá Chelsea í Úrvalsdeildinni í heild sinni á Chelsea.is (Chelsea FC – Allir leikir og úrslit) með þeim fyrirvörum sem ávallt eru í upphafi keppnistímabils.

Chelsea Women hefja svo titilvörn sína helgina 9-11. september n.k. en leikjaniðurröðun hjá liðinu verður birt um miðjan júlí, keppni í WSL lýkur svo laugardaginn 27. maí 2023.

Endurnýjanir, nýskráningar o.fl. 2022-2023

Þær fréttir voru að berast frá höfuðstöðvunum að opnað verður á endurnýjanir og nýskráningar félagsaðildar 4. júlí n.k. en ekki var þess getið hvort árgjöld verða óbreytt eða taki einhverjum breytingum, það hlýtur þó að liggja fyrir á næstu dögum!

Þá var tilkynnt um að grunnverð miða verði óbreytt frá síðasta keppnistímabili, umsýslugjald (GBP 2.- hver miðakaup) verður fellt niður.

Keppni í ensku úrvalsdeildinni hefst svo fyrstu helgina í ágúst svo það er nokkuð ljóst að forkaupsréttur okkar á miðum á fyrstu leiki Chelsea verður með skemmra móti.

Leikjaskráin verður svo birt 16. júní en þá eiga rétthafar sjónvarpsútsendinga frá leikjum í deildinni eftir að hræra í niðurröðuninni!

Hér er hægt að skrá sig!

Nýtt starfsár hafið

Í dag hefst formlega nýtt starfsár Chelsea-klúbbsins á Íslandi, það tuttugusta- og sjötta í röðinni frá því er Chelsea-klúbburinn var stofnaður.

Nýliðið starfsár var um margt einkennilegt, skiptust þar á skin og skúrir, aðallega þó hjá móðurfélaginu, svo ekki sé fastar að orði kveðið en við munum gera liðnu starfsári nánari skil á aðalfundi Chelsea-klúbbsins á komandi haustmánuðum.

Á næstu vikum og mánuðum munu störf stjórnarmanna væntanlega einkennast af umsjón með endurnýjun félagsaðildar, bæði klúbbsins sem slíks gagnvart Chelsea Football Club og þá ekki síður félagsmanna Chelsea-klúbbsins, jafnframt að taka við nýskráningum í klúbbinn og koma þeim til skila til móðurfélagsins og síðast, en ekki síst, að aðstoða félagsmenn við kaup á miðum á fyrstu leiki Chelsea á komandi keppnistímabili en leikjaskrá vegna 2022-2023 keppnistímabilsins verður opinberuð fimmtudaginn 16. júní n.k.

Stjórn Chelsea-klúbbsins þakkar félagsmönnum, samstarfs- & styrktaraðilum og öðrum velunnurum Chelsea-klúbbsins samfylgdina á nýliðnu starfsári með von um ánægjulegt og árangursríkt framhald á nýju starfsári.

Meistarakveðja,

Stjórnin.

Lukaku í framlínu frétta

Romelu Lukaku gæti gengið aft­ur í raðir In­ter Mílanó í sum­ar frá Chel­sea. Enska fé­lagið keypti Belgann af In­ter á 97,5 millj­ón­ir síðasta sum­ar.

Lukaku átti erfitt tíma­bil með Chel­sea og olli nokkr­um von­brigðum. Hann viður­kenndi í viðtali við Sky á Ítal­íu í des­em­ber að hann væri til í að snúa aft­ur til In­ter.

Sky grein­ir frá því að In­ter geti ekki boðið Chel­sea neitt í lík­ingu við þá upp­hæð sem enska fé­lagið greiddi fyr­ir belg­íska fram­herj­ann. Þrátt fyr­ir mun teymi Lukaku funda með In­ter í vik­unni.

Félagfundur, happdrætti og uppgjör á Tippleik

Það var góður hópur sem fagnaði saman á félagsfundi klúbbsins þann 28. maí á Ölveri. Þar fór fram útdráttur í Vorhappdrætti klúbbsins og að venju voru veglegir vinningar sem fóru út til fjölmargra. Þátttaka í happdrættinu var með besta móti og þökkum við öllum þeim sem þátt tóku og lögðu klúbbnum lið við að halda áfram að styrkja góð málefni. Jafnframt eru gefendum vinninga færðar bestu þakkir.

Úrslit Tippleiksins voru kunngjörð og var auk þess einn dreginn út af handahófi sem þátt tóku. Sigurvegari Tippleiksins var Birgir Ottó Hillers með 99 stig en mjótt var í annað sætið en það hlaut Arnór Hillers með 98 stig. Víðir Ragnarsson kom svo sterkur inn í þriðja sætið með 89 stig. Að lokum var það Brynjar Kvaran sem sigraði slembiúrtakið. 

Látum þennan pistil ljúka með heppnum vinningshöfum sem tóku við vinningum sínum.

ingvar

 

vinning1

 

vinnn3

Kaupin á Chelsea ganga í gegn

Bresk stjórn­völd hafa samþykkt að veita fjár­festa­hópi sem Banda­ríkjamaður­inn Todd Boehly er í for­svari fyr­ir leyfi fyr­ir kaup­um á enska knatt­spyrnu­fé­lag­inu Chel­sea. Áður var enska úr­vals­deild­in búin að veita samþykki sitt og geta því 4,25 millj­arða punda kaup fjár­festa­hóps­ins gengið í gegn.

„Seint í gær­kvöldi komst breska rík­is­stjórn­in að þeirri niður­stöðu að henni væri unnt að veita leyfi fyr­ir söl­unni á Chel­sea," sagði talsmaður rík­is­stjórn­ar­inn­ar í morg­un.

Vegna refsiaðgerða breskra stjórn­valda í garð rúss­neska auðkýf­ings­ins Rom­ans Abramovich í tengsl­um við inn­rás Rúss­lands í Úkraínu, þar sem Abramovich er sagður ná­inn Vla­dimír Pútín Rúss­lands­for­seta, vildi breska rík­is­stjórn­in ganga úr skugga um að Abramovich myndi ekk­ert hagn­ast á söl­unni.

Stóð hníf­ur­inn í kúnni um nokk­urt skeið vegna þessa en bresk stjórn­völd una nú þeim aðgerðum sem hafa verið sett­ar á fót og sjá til þess að all­ur hagnaður sem hefði runnið í vasa Abramovich verði þess í stað lagður inn á fryst­an banka­reikn­ing, þaðan sem öll upp­hæðin mun renna til góðgerðar­mála.

Chelsea dömurnar FA Cup meistarar 2022

Það var ekki síðri leikur en á laugardaginn þegar Chelsea Women og Manchester City Women mættust í úrslitum ensku bikarkeppninnar (Vitality Cup) á Wembley Stadium. Dömurnar stóðust prófið og kláruðu leikinn með miklum glæsibrag.

Chelsea Women eru enskir bikarmeistarar í fjórða sinn, tvö mörk frá Sam Kerr og draumamark frá Erin Cuthbert gerðu út um leikinn þegar liðin áttust við í æsispennandi úrslitaleik fyrir framan tæplega 50 þúsund áhorfendur sem er metaðsókn á leik kvennaliða í ensku bikarkeppninni.

Liðin tvö hafa verið yfirburðalið í nútímasögu þessarar keppni, unnið síðustu sex úrslitaleiki keppninnar en þetta var dagur Chelsea þegar við bættum FA bikarnum við Englandsmeistaratitilinn sem vannst í síðustu viku.

Þetta var klassískur úrslitaleikur og bauð upp á mikla skemmtun og spennu. Chelsea komst tvisvar yfir í  leiknum, staðan 1-1 í leikhléi en 2-2 að loknum venjulegum leiktíma og hafði Manchester City jafnað í blálokin í báðum hálfleikjum. Chelsea hafði svo betur í framlengingu, settu þá eitt mark gegn engu.
Það var Kerr sem opnaði markareikningin. Millie Bright var arkitektinn að markinu eftir furðulega fyrirgjöf frá hægri sem gæti hafa farið inn hvort sem er, þar sem Ellie Roebuck misreiknaði sig hrikalega. Kerr var á réttum stað til að leggja lokahöndina með lítilli snertingu rétt við markstöngina. Þetta er fjórði enski úrslitaleikurinn í röð sem Ástralinn skorar í, þar á meðal tvö í desember þegar við unnum Arsenal og lyftum FA bikarnum.

City kom hins vegar hressilega til baka og jafnaði fyrir hálfleik með góðu marki frá Lauren Hemp sem fékk sendinguna frá Bright. Óverjandi fyrir Ann-Katrin Berger.

Þá var komið að Erin Cuthbert að skora draumamark af 25 metra færi. Hún fékk lítinn tíma og aðþrengd varnarmönnum City skoraði sú skoska og Þvílíkt mark frá Erin Cuthbert!

Þetta var mark sem var vel þess virði að útkljá svona skemmtun,  City jafnaði hins vegar á lokamínútu venjulegs leiktíma er varamaðurinn Hayley Raso laumaði sér aftur fyrir varnarlínu Chelsea og tryggði sínu liði framlengingu.


Eftir að hafa tapað úrslitaleik Meginlandsbikarsins (Continental Cup) gegn Manchester City fyrr á keppnistímabilinu settu leikmenn Chelsea og Manchester City á svið einn sögulegasta leik enska kvennaboltans þar sem 49.094 áhorfendur mættu á Wembley Stadium. Þetta markar nýtt met í úrslitaleik FA bikars kvenna.

Lokaflautið gall og staðfesti Chelsea Women sem sigurvegara FA bikarsins í fjórða sinn. Einhvern veginn höfðu leikmenn enn næga orku til að fagna eftir erfiðar 120 mínútur. Þær höfðu lagt sig alla fram, framleitt sjónarspil sem sýndi það besta úr kvennaleiknum og staðfesti stöðu þeirra sem yfirburðalið á Englandi.